Innlent

Áfram unnið að virkjunum í neðri hluta Þjórsár

Þorsteinn Hilmarsson segir unnið að því að gera virkjanirnar í Þjórsá sem umhverfisvænastar
Þorsteinn Hilmarsson segir unnið að því að gera virkjanirnar í Þjórsá sem umhverfisvænastar MYND/GVA
Landsvirkjun getur nýtt alla þá orku sem fæst úr virkjununum þremur sem áformað er að reisa í neðri hluta Þjórsár þar sem eftirspurnin eftir orku er langt umfram framboð, segir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Hann segir að áfram verði unnið að virkjunum og við hönnun þeirra sé verið draga úr umfangi þeirra og áhrifum þannig að þær verði sem umhverfisvænastar.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra og þingmaður í Suðurkjördæmi, kallaði eftir því í gær að Landsvirkjun endurskoðaði áform sín um virkjanir í neðri hluta Þjórsá í samræmi við þá ákvörðun fyrirtækisins að selja ekki orku til nýrra álvera á suðvesturhorninu. Vildi hann nýjar tillögur sem yrðu í sátt við umhverfisverndarsamtök í íbúa við Þjórsárbakka sem sumir hverjir hafa gagnrýnt harðlega virkjunaráformin og sagt þær ógn við íbúa á jarðskjálftasvæðinu vð Þjórsá.

Benti Björgvin á að fyrir nokkrum árum hafi Landsvirkjunarmenn talað fyrir miklu umfangsminni rennslisvirkjunum en ljóst væri að netþjónabú og kíslivinnslustöðvar þyrftu mun minni orku en álver en þau borguðu meira fyrir orkuna. Sagði Björgvin á vef Samfylkingarinnar að ef Landsvirkjun ætlaði að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist við Þjórsá þá væru hugmyndir félagsins jafnvondar og áður, hvað sem liði yfirlýsingum um kaupendur orkunnar.

Umframorka mögulega seld til annarra netþjónabúa

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir félagið hafa átt í viðræðum við 15 aðila um kaup á orku og eftirspurnin eftir henni sé langt umfram framboð. Virkjanirnar þrjár, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun, eiga samtals að framleiða um 250 megavött af raforku og segir Þorsteinn aðspurður að netþjónabú Verne Holding og kísilhreinsunarverksmiðja muni nýta helminginn af þeirri orku ef af samningum verði.

Hægt sé að selja afgang orkunnar til annarra fyrirtækja sem hafi áhuga á að koma á fót netþjónabúum eða kísilhreinsistöðvum hér á landi. Þá komi einnig til greina að selja þeim álverum sem þegar starfa í landinu, til dæmis Alcan í Straumsvík eða Norðuráli á Grundartanga, meiri orku ef þau fari í tæknilegar breytingar til að auka framleiðni sína.

Vegna orða Björgvins um rennslisvirkjanir segir Þorsteinn að hinar nýju virkjanir í Þjórsá séu rennslisvirkjanir. Unnið hafi verið að því að hafa inntakslón virkjananna sem minnst. Þannig hafi hæð Heiðarlóns við Urriðafossvirkjun verið lækkuð úr fimm metrum í fjóra sem þýði að lónið minnki úr 12 ferkílómetrum í níu. Þorsteinn bendir enn fremur á að 80 prósent af því landi sem fari undir lón sé í núverandi árfarvegi Þjórsár.

Lónin séu samanlagt um 18 ferkílómetrar og þar af séu um fjórir ferkílómetrar utan árbakkanna. „Við teljum okkur vera með umhverfisvænar virkjanir og höfum reynt að lágmarka umfang þeirra við hönnun," segir Þorsteinn.

Ekki áform um eignarnám

Fram hefur komið að þrír landeigendur við Þjórsá hafi slitið viðræðum við Landsvirkjun vegna virkjunaráformanna. Þorsteinn segir að framkvæmdir við virkjanirnar snerti um 30 jarðir og samkomulag við nokkra landeigendur liggi þegar fyrir og þá eigi eftir að undirrita nokkra samninga til viðbótar.

Þorsteinn bendir á að Landsvirkjun sé handhafi um 95 prósenta allra vatnsréttinda sem tengjast framkvæmdunum vegna samninga Títanfélagsins á síðustu öld. Í slíkum samningum við landeigendur sé kveðið á um hvernig leyst skuli úr málum þegar nýta eigi vatnsréttindin.

Ef menn nái ekki samningum um tilteknar bætur vegna skerðingar á landi sé leitað til dómskvaddra matsmanna eða málið þannig til lykta leitt fyrir dómsstólum. Hann tekur fram að ekki sé rétt sem fram hafi komið í fjölmiðlum að Landsvirkjun hafi uppi áform um að taka lönd eignarnámi vegna virkjananna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×