Innlent

Björgólfsfeðgar vilja Fáfnismenn úr sínum húsum

Andri Ólafsson skrifar
Björgólfur Guðmundsson á húsið sem lögregla réðst inn í í gær. Hann vill ekki ólöglega starfsemi í sínum húsum.
Björgólfur Guðmundsson á húsið sem lögregla réðst inn í í gær. Hann vill ekki ólöglega starfsemi í sínum húsum.

Klúbbhús mótorhjólaklúbbsins Fáfnis, sem sérsveit lögreglu réðst inn í í gær, er í eigu eignarhaldsfélagsins Vatns og lands. Vatn og Land er í eigu Samson Properties sem aftur er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Fáfnismenn greiða mánaðarlega leigu af klúbbhúsinu sem rennur í vasa feðganna.

Nágrannar Fáfnismanna, sem Vísir hefur rætt við í dag, er fyrir löngu orðnir þreyttir á því ónæði sem þeir segja að sé af starfsemi Fáfnismanna í klúbbhúsinu sem stendur við horn Frakkastígs og Hverfisgötu. Þeir segja að þar sé vafasöm starfsemi stunduð og gruna að þar fari fram fíkniefnaviðskipti.

Ásgeir Friðgeirsson, ráðgjafi Björgólfsfeðga, staðfestir að þeir séu eigendur að klúbbhúsinu, sem sérsveit lögreglu réðst inn í í gær, en tekur fram að leigusamningur Samson Properties við Fáfnismenn hafi fylgt í kaupum á fasteignum og lóðum á svæðinu. „Við erfðum þennan leigusamning frá fyrri eigendum," segir Ásgeir.

Aðspurður hví leigusamningnum hafi ekki verið sagt upp við Fáfnismenn, þegar gengið var frá kaupunum svarar Ásgeir að upplýsingar um vafasöm viðskipti Fáfnismanna hafi einfaldlega ekki borist feðgunum til eyrna.

Hann segir atburði gærdagsins hafa opnað augu manna fyrir því að nauðsyn sé að endurskoða leigusamninga Samson við Fáfnismenn. „Við unum því ekki að ölögleg stafsemi sé stunduð í húsum Samson Properties," segir Ásgeir, en á meðal þess sem lögregla fann í húsnæðinu voru fíkniefni og vopn.

Ásgeir bætir því við að málið sé litið afar alvarlegum augum og skoðað verði hvort hægt sé að rifta leigusamningi við Fáfni.

Húsleit lögreglu í gær náðist á myndband. Hægt er að sjá það hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×