Erlent

Loka fyrir internet í Mjanmar

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Blóðugir sandalar á götum Rangoon eftir mótmælin í gær.
Blóðugir sandalar á götum Rangoon eftir mótmælin í gær. MYND/AFP

Herstjórnin í Mjanmar hefur lokað fyrir aðgang almennings að interneti til að forðast að myndbrot af blóðugum aðgerðum öryggissveita gegn mótmælendum berist um heiminn. Internet kaffihúsum í höfuðborginni Rangoon og öðrum borgum landsins hefur verið lokað. Bloggarar sem nota internetið til að fá meira en fréttir ritstýrðra fréttastöðva í landinu segjast vera í vandræðum með að koma efni á bloggin.

Fréttaritari Sky segir að þeir sem kvarti til ríkisrekna internetfyrirtækisins fái þær skýringar að netið liggi niðri vegna viðhalds.

Ástandið í Mjanmar mun vera örlítið betra í dag en síðustu daga. Mótmælendur reyna að safnast saman, en herstjórnin heldur áfram aðgerðum gegn þeim. Hún hefur lokað svæðum nálægt búdda pagóðum í höfuðborginni til að reyna að komast hjá mótmælunum sem hafa að mestu verið í kringum búddahofin. Götum og torgum hefur einnig verið lokað. Útgöngubann er nú í gildi frá klukkan 6 á kvöldin til sex á morgnana.

Samkvæmt opinberum heimildum hafa að minnsta kosti níu manns hafa látið lífið í mótmælunum, þar af einn japanskur fréttaljósmyndari. Óttast er að tala látinna sé mun hærri. Lýðræðisöfl greindu frá því í gær að allt að hundrað manns hefðu látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×