Erlent

Frönsk herskip gegn sjóræningjum

MYND/AFP

Frakkar hafa boðist til þess að senda herskip til að vernda sjóleiðina við strendur Sómalíu gegn árásum sjóræningja. Hafsvæðið úti fyrir Sómalíu er talið vera eitt það hættulegasta í heimi.

Að minnsta kosti 17 skip hafa orðið fyrir sjóræningjaárásum á hafsvæðinu úti fyrir Sómalíu það sem af er þessu ári. Á sama tíma í fyrra voru árásirnar 8 talsins.

Sjóræningjarnar hafa valdið miklum truflunum á matarsendingum alþjóðlegra hjálparsamtaka til Sómalíu en flestar sendingarnar eru fluttar með skipum til landsins. Yfirmenn alþjóðlegra hjálparsamtaka hafa varað við þessum árásum og sagt að þær muni leiða til hungursneyðar í landinu. Talið er að um 1,2 milljónir manna séu háðar matarsendingum frá alþjóðlegum hjálparsamtökum. Vonast er til þess að aðstoð Frakka muni fæla sjóræningjana í burtu og tryggja sjóleiðina.

Sjóræningjarnir eru vel vopnum búnir og á hraðskreiðum bátum. Hingað til virðast þeir hafa meiri áhuga á því að taka áhafnir í gíslingu en að stela skipsförmum. Skemmst er að minnast þegar sjóræningjar héldu fimm manna áhöfn danska farmskipsins Danica White í gíslingu í tæpa þrjá mánuði síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×