Innlent

Engin gjöld á etanólið

Ákveðið hefur verið að etanól, nýjasta viðbótin í flóru vistvæns eldsneytis hér á landi, verði undanþegið gjöldum. Vörugjald á bensín er 42,3 krónur á lítra, en 41 króna á díselolíu. Frá þessu greinir á heimasíðu Brimborgar.

Brimborg lét í fyrstu lotu flytja inn 2000 lítra af E85 líf etanóli í tilraunaskyni, samhliða tveimur tegundum etanól bíla, en Olís sér um að flytja eldsneytið og dreifa því.

Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar segir á heimasíðu umboðsins að ekki hafi verið gengið frá því hvernig gjöldum á bílana sjálfa verður háttað, en að erindi um niðurfellingu gjalda á etanól-bifreiðar bíði afgreiðslu stjórnvalda. Hann segir Brimborg telja það eðlilegt í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um fjölgun visthæfra ökutækja að gjöld verði felld niður á sama hátt og gert er við vetnis-, rafmagns- og metangasbíla.

E85 stendur fyrir það að eldsneytið er blanda 85% etanóls og 15% bensíns. Etanólið er framleitt í Svíþjóð úr afgöngum sem falla til í trjáiðnaði þar í landi. Það hefur þann kost umfram önnur vistvæn eldsneyti að það er í vökvaformi, og því hægt að dreifa því á sama hátt og bensíni. Því er hægt að notast við þær dælustöðvar sem þegar eru fyrir hendi.

Þá þarf litla breytingu að gera á hefðbundnum bílvélum til að þær geti keyrt á etanóli. Eins geta etanólbílar keyrt á bensíni þegar etanólsins nýtur ekki við. Bílar af þessari gerð losa allt að 80% minna af koltvísýringi út í andrúmsloftið.

Fyrsta etanóldælan verður vígð þann sautjánda september, að viðstöddum erlendum sérfræðingum sem eru staddir hér á landi vegna ráðstefnunnar Driving Sustainability.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×