Innlent

Truflanir á millilandaflugi Icelandair vegna kjaradeilu við flugmenn

Miklar truflanir hafa orðið á millilandaflugi Icelandair í morgun vegna kjaradeilu félagsins við flugmenn. Aflýsa þurfti beinu flugi til Stokkhólms og farþegar sendir þess í stað með vél til Osló sem síðan hélt áfram til Stokkhólms.

Um eitt hundrað og fimmtíu manns áttu bókað flug með Icelandair til Stokkhólms í morgun. Vegna kjaradeildu Icelandair við Félag íslenskra atvinnuflugmanna fengust hins vegar engir flugmenn til fljúga vélinni. Því var ákveðið að farþegarnir færu með vélinni til Oslóar sem síðan heldur áfram til Stokkhólms.

Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, komast þó ekki allir með sem áttu bókað far. Þeir farþegar verða sendir með vélinni til Kaupmannahafnar í hádeginu.

Guðjón segir að strax í gærkvöldi hafi verið ljóst hvert stefndi. Því hafi farþegum í Minneapolis í bandaríkjunum sem áttu bókað framhaldsflug til Stokkhólms verið boðið að fara með öðru flugfélagi beint til Evrópu.

Viðræðum forráðamanna Icelandair við flugmenn vegna forgangsréttarákvæðis í kjarasamningum flugmanna sigldu í strand í lok síðustu viku. Í kjölfarið beindi Félag íslenskra atvinnuflugmanna þeim tilmælum til félagsmanna að þeir muni í einu og öllu fara eftir gildandi kjarasamningum frá og með deginum í dag.

Tryggvi Þór Hafstein, varaformaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sagði í samtali við fréttastofu að flugmenn væru aðeins fylgja eftir ákvæðum kjarasamning. Þá sagði hann það einnig undarlegt að á sama tíma og félagið væri að segja upp flugmönnum væru ekki til nógu margir flugmenn til að manna allar bakvaktir.

Gert er ráð fyrir frekari truflunum á millilandaflugi Icelandair á næstu dögum og eru farþegar hvattir til að fylgjast með breytingum á upplýsingasíðu flugfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×