Innlent

Tilkynnt um vatnsleka í fjölbýlishúsi í Kópavogi

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út að fjölbýlishúsi við Engihjalla í Kópavogi um klukkan níu í kvöld vegna vatnsleka. Á sama tíma var óskað eftir aðstoð slökkviliðs við að reykræsta skemmtistað við Bankastræti í miðbæ Reykjavíkur.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins lak heitt vatn frá baðherbergi í íbúð í fjölbýlishúsinu. Einhverjar skemmdir urðu á íbúðinni en slökkviliðsmenn eru enn að störfum. Þá var óskað eftir aðstoð slökkviliðs við að reykræsta skemmstaðinn B5 í Bankastræti en eldur kviknaði í eldhúsinu þar laust fyrir klukkan níu. Þegar slökkviliðið bar að garði reyndist ekki þörf á reykræstingu og eldurinn löngu slökktur.

Þá voru slökkviliðsmenn beðnir laust eftir klukkan fjögur í dag um að aðstoða kött sem hafði klifrað upp í tré við Ásvallagötu í Reykjavík. Að sögn slökkviliðsins gekk vel að hjálpa kisu niður og var hún fljót að jafna sig eftir klifrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×