Innlent

Réðust á mann með golfkylfu og piparúða

MYND/HJ

Mjög erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og var mikið um ölvun og almenn ólæti í miðborginni. Fangageymslur fylltust og þurfti lögreglan að rýma til svo fleiri kæmust að. Einn maður fannst rotaður í Hafnarstræti og þá var ráðist á mann með golfkylfu og piparúða við Broadway.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru alls 20 manns færðir í fangageymlsu í nótt vegna ýmissa brota. Í flestum tilvikum var um að ræða brot tengd ölvun og ósæmilegri heðgun.

Þá voru nokkrir teknir fyrir að kasta af sér þvagi á almannafæri.

Í Pósthússtræti var maður skyndilega laminn þannig að stór kúla kom á ennið. Vitni að árásinni segja að árásarmennirnir hafi verið úr þekktum móturhjólasamtökum. Þá var ráðist á mann við Broadway um klukkan fimm í nótt. Árásarmennirnir voru þrír og voru þeir vopnaðir golfkylfum og piparúða sem þeir beittu gegn manninum. Tveir þeirra voru handteknir en einn komst undan.

Um klukkan sex barst lögreglunni tilkynning um að maður lægi rotaður við veitingastað í Hafnarstræti eftir átök. Stuttu seinna kom svo önnur tilkynning frá dyravörðum skemmtistaðarins um að búið væri að taka hníf af manni og að líklega fleiri gestir væru með hnífa. Árásarmaður náði að sleppa en vitni segja hann um 100 kíló að þyngd og vöðvamikinn. Maðurinn sem rotaðist var fluttur á slysadeild en hafði ekki verið stunginn.

Um klukkan hálf sjö í morgun var óskað eftir aðstoð lögreglunnar á veitingastað í Tryggvagötu. Þar brutust út átök milli manna og var einn maður handtekinn.

Þá komu upp fimm fíkniefnamál í nótt og einn var lagður inn á slysadeild eftir að hafa tekið inn skammt af alsælu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×