Innlent

Háskólanám hafið á Sólheimum í Grímsnesi

Háskólanám hófst í dag á Sólheimum í Grímsnesi. Á meðan hinn landskunni Reynir Pétur Ingvarsson sýslar við lífrænt ræktaðar tómatplöntur leggja bandarískir háskólastúdentar stund á nám í umhverfisfræðum á Sólheimum.

Háskólanemendur eru sestir á skólabekk á Sólheimum í Grímsnesi en þeir hófu formlega nám í dag sem snýst um sjálfbæra þróun í sjálfbæru samfélagi. Hluti af náminu er meðal annars að vinna við lífræna ræktun með Reyni Pétri og öðrum íbúum á Sólheimum.

Námið helgast af fyrirlestrum í Sesseljuhúsi á Sólheimum og vettvangsferðum um landið.

Að sögn Bergþóru Hlíðkvist Skúladóttur, munu nemendur auk þess taka þátt í daglegum verkefnum íbúa á Sólheimum.

Menntasamtökin sem að baki þessu standa eru bandarísk en hugmynd þeirra er að bjóða nemendum á háskólastigi tækifæri til að kynnast umhverfismálum á Íslandi með áherslu á hið sjálfbæra samfélag á Sólheimum í Grímsnesi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra ýtti námsbrautinni formlega úr vör í dag en hún sagði námið skýrt dæmi um frumkvæði Íslendinga á sviði umhverfismála.

Hún sagði mikilvægt fyrir Íslendinga að vinna að því að Ísland yrði miðstöð þekkingar í umhverfisvernd.

Fulltrúi nemendanna fjórtán sagði að þeir væru afar spenntir fyrir náminu og Ísland væri vel til þess fallið að hýsa námsbraut í umhverfisfræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×