Erlent

Bandaríkjamenn feitari en nokkru sinni fyrr

Þörf er á markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir offituvandamál.
Þörf er á markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir offituvandamál. Mynd/ Getty Images

Bandaríkjamenn eru feitari en nokkru sinni fyrr. Offituvandamál hafa aukist í flestum fylkjum Bandaríkjanna og þeim fækkar sem stunda reglulega hreyfingu.

Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Trust for Americas Health birtu í gær. Samtökin telja að einungis markvissar aðgerðir bandarískra stjórnvalda, skóla og einstaklinga muni bæta ástandið.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að ástandið fari versnandi í öllum fylkjum Bandaríkjanna. Þar segir einnig að slæmt mataræði og hreyfingarleysi sé að gera út um heilsu Bandaríkjamanna.

Samkvæmt skýrslunni jókst offita á meðal fullorðinna í 31 fylki á síðasta ári og minnkaði ekki í einu einasta fylki.

Trust samtökin vilja að gerðar verði markvissar áætlanir til að berjast gegn offitu í Bandaríkjunum. Um 60% fullorðinna þar hrjáist af offitu eða yfirvigt. Lagt er til að lögum verði breytt og reglugerð sett um skólanesti. Tryggingafélög verði skylduð til að greiða fyrir megrunarkúra og fræðsla um heilsu verði aukin í skólum.

Trust samtökin segja að börn séu í sérstakri hættu. Offita barna þrefaldaðist á árunum 1980 - 2004. Um 25 milljónir bandarískra barna hrjást af offitu eða yfirvigt, segir í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×