Erlent

Hugo kemur til bjargar

Oddur S. Báruson skrifar

Forseti Venesúela, Hugo Chavez, hefur opinberlega heitið öllum samstarfsríkjum sínum í Suður-Ameríku aðstoð í orkumálum ef þörf krefur. Í Venesúela eru ríkulegar olíu-, og gaslindir.

Hugo tilkynnti þetta á dögunum í ræðu sem hann hélt í höfuðborg Argentínu, Buenos Aires. Þar hafði hann skrifað undir einskonar orkuöryggissamning við ríkisstjórn Argentínu.

Samningurinn kemur sér vel fyrir Argentínu sem má þola mikinn olíuskort og harðan vetur um þessar mundir.

Hugo sagðist vilja skrifa undir álíka samning við fleiri ríki Suður-Ameríku.

Þá notaði Hugo tækifærið, eins og í flestum öðrum ræðum sínum, og lýsti yfir óvild sinni í garð Bandaríkjanna.

„Bandaríkjamenn telja fimm prósent af mannkyninu en samt notar þjóðin tuttugu prósent af orkunni sem notuð er í heiminum," sagði Hugo. Hann sagði Bandaríkin óseðjandi í orkunotkun sinni og að hátterni þeirra bitni mest á Suður-Ameríku.

Þá líkti Hugo Bandaríkjunum við sjálfan Drakúla greifa, þ.e. Bandaríkin lægju á jörðinni og sygju úr henni olíu líkt og Drakúla gerði ef um blóð væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×