Erlent

Minnismerki um fórnarlömb Stalíns

MYND/AFP

Um þrettán metra hár trékross var vígður í bænum Butovo rétt fyrir utan Moskvu, höfuðborg Rússlands, í gær til minningar um fórnarlömb hreinsana Stalíns. Krossinn var reistur á svæði sem áður var notað sem aftökustaður en þar voru um 20 þúsund manns teknir af lífi.

Mörg hundruð manns voru samankomin í Butovo þegar minnismerkið var vígt í gær. Þá var þess ennfremur minnst að í ár eru 70 ár liðin frá því Stalín hóf sínar alræmdu hreinsanir.

Krossinn, sem er 12,5 metrar á hæð, var settur á stað sem áður var notaður til aftöku. Það voru munkar í Solovetsky klaustrinu í norðurhluta Rússlands sem byggðu krossinn en þar sem hann stendur nú voru um eitt þúsund nunnur og munkar teknir af lífi árið 1937.

Talið er að milljónir manna hafi látið lífið í hreinsunum Stalíns á fjórða áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×