Erlent

Verkfalli þýskra lestarstjóra frestað

MYND/AFP

Verkfalli þýskra lestarstjóra sem átti að hefjast á morgun hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Þýskur dómstóll úrskurðaði í morgun að verkfallið væri ólöglegt.

Kjaraviðræður lestarstjóra og þýska ríkisjárnbrautafyrirtækisins Deutsche Bahn sigldu í strand í síðustu viku. Í kjölfarið boðuðu lestarstjórar verkfall sem átti að hefjast á morgun. Í fyrstu átti verkfallið einungis að hafa áhrif á vöruflutninga í landinu en seinna meir ætluðu lestarstjóra í almennum flutningum einnig að leggja niður vinnu. Óttast var að verkfallið kynni að hafa skaðlega áhrif á þýskt efnahagslíf og valda tjóni upp á tugi milljarða króna.

Um 35 þúsund lestarstjórar starfa hjá Deutsche Bahn en þeir krefjast launahækkunar upp á 31 prósent. Talsmenn verkalýðsfélags lestarstjóra hafa nú þegar lýst því yfir að þeir muni áfrýja úrskurði dómstólsins frá því í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×