Erlent

Björgunaðgerðum í Utah frestað

Björgunarsveitarmönnum í Utah fylki í Bandaríkjunum hefur enn ekki tekist að bjarga sex námaverkamönnum sem urðu innlyksa þegar námurnar féllu saman á mánudaginn. Fresta þurfti björgunaraðgerðum í morgun vegna jarðskjálfta á svæðinu.

Enn liggur ekki fyrir hvað olli því að kolanámurnar sem eru um 225 kílómetra frá Salt Lake City hrundu saman á mánudaginn. Í fyrstu var haldið að jarðskjálftar hefðu valdið slysinu en nú er einnig talið mögulegt að sprengingar í tengslum við námugröft hafi valdið því námurnar hrundu.

Mennirnir sex eru á um 450 metra dýpi en ekki er vitað hvort þeir séu enn á lífi. Björgunarsveitarmenn hófu í gær undirbúning að því að bora sér leið í átt að mönnunum en til þess verða notaðir tveir borar. Fresta þurfti hins vegar björgunaraðgerðum í morgun vegna jarðhræringa á svæðinu.

Séu mennirnir sex enn á lífi er talið að þeir hafi nægilegt vatn og súrefni til að endast í nokkra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×