Erlent

Varað við tíðari hitabylgjum og illviðrum í heiminum

Íbúar Bangladess hafa margir hverjir orðið illa úti í miklum monsúnrigningum undanfarna daga.
Íbúar Bangladess hafa margir hverjir orðið illa úti í miklum monsúnrigningum undanfarna daga. MYND/AP

Veðurfarsstofnun Sameinuðu þjóðanna varar við því að illviðri og hitabylgjur verði tíðari á næstu árum í nýrri skýrslu um veðurfar í heiminum.

Þar er bent á að fyrri hluti þessa árs hafi einkennst af bæði illviðrum og miklum hitum víða í heiminum og að meðaltalshitinn í heiminum frá janúar til apríl hafi ekki reynst meiri frá því að mælingar hófust árið 1880.

Þá er bent á að ellefu af síðustu tólf árum séu með þeim tólf heitustu sem mælst hafi á þessu tæplega 130 ára tímabili. Enn fremur sýna loftlagsrannsóknir að hitinn hafi aukist meira síðustu hálfa öldina en á nokkru öðru 50 ára tímabili síðustu 500 ár.

Tíðar fréttir hafa borist af bæði illviðrum og hitabylgjum í heiminum, nú síðast í Suðaustur-Asíu þar sem metúrkoma hefur fallið og valdið miklu tjóni. Sömu sögu er að segja af Englandi og Wales þar sem miklar rigningar hafa verið í sumar með tilheyrandi flóðum.

Í Suður-Evrópu var á sama tíma hitabylgja sem dró fjölda manna til bana og þá er varað við hitabylgju víða í Bandaríkjunum þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×