Erlent

Rússar hvattir til að láta af ásökunum

Forseti Georgíu, Mikael Sjakasvílí, virðir fyrir sér verksumerki í dag. Fyrir aftan hann sjást leyfar flugskeytisins.
Forseti Georgíu, Mikael Sjakasvílí, virðir fyrir sér verksumerki í dag. Fyrir aftan hann sjást leyfar flugskeytisins. MYND/Getty

Bandarísk yfirvöld hafa hvatt Rússa til þess að draga úr ásökunum sínum í garð Georgíumanna í kjölfar þess að flugskeyti var skotið á smábæ í Georgíu síðastliðinn mánudag. Georgíumenn hafa fullyrt að flugskeytinu hafi verið skotið úr rússneskri herþotu en Rússar hafa sakað Georgíumenn um að hafa sjálfir skotið flugskeytinu í því augnamiði að valda spennu á milli ríkjanna.

Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sem fer með málefni Austur Evrópu, Matt Bryza, sagði í kvöld að Bandaríkjamenn væru enn að reyna að komast á snoðir um hvað gerðist. Hann sagði ennfremur engar sannanir fyrir því að Georgíumenn stæðu sjálfir á bak við árásina og hvatti Rússa til að láta af ásökunum af því taginu.

Flugskeytið lenti á akri fyrir utan bæinn án þess að springa. „Við fordæmum allar árásir á landsvæði Georgíu," sagði Bryza á blaðamannafundi í kvöld. „Við getum ekkert sagt um hver gerði hvað á þessu stigi málsins en það er ekkert sem bendir til þess að Georgíumenn hafi sjálfir verið hér að verki."

Í mars síðastliðinn átti svipað atvik sér stað í Georgíu og þá sökuðu Georgíumenn Rússa um að vera valdir að árásinni. Þá, eins og nú svöruðu Rússar fyrir sig og fullyrtu að heimamenn hefðu sjálfir verið að verki. Ríkin tvö, sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum deila hart um málefni Suður Ossetíu, héraðs í Georgíu sem sækist eftir sjálfstæði og Rússar styðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×