Erlent

Stebba snitsel stungið í steininn

Óli Tynes skrifar
Stefán elskar snitsel.
Stefán elskar snitsel.

Stefán býr í Berlín. Hann er 160 kíló að þyngd og þarf því matinn sinn og vel af honum. Stefán heldur sérstaklega upp á vínarsnitsel og pantar það oft á veitingastöðum sem hann sækir. Með matnum drekkur hann býsnin öll af bjór. Þetta væri svosem ekki fréttnæmt nema vegna þess að Stefáni láist jafnan að borga fyrir matinn.

Stebbi snitsel, eins og hann er kallaður var í síðustu viku dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að svíkja mat út úr 64 veitingastöðum. Hann át og drakk eins og hann gat í sig látið og stakk svo af frá reikningnum.

Ekki er gerla vitað hvað Stefán fær að borða í fangelsinu. Það er þó ljóst að erfiðara verður fyrir hann að stinga af eftir matinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×