Erlent

Óttast fleiri tilfelli gin-og klaufaveiki

MYND/AFP

Vísindamenn í Bretlandi rannsaka nú hvort nautgripir í öðru kúabúi í Surrey hafi sýkst af gin- og klaufaveiki. Kúabúið er í um þriggja kílómetra fjarlægð frá búinu þar sem veikin greindist fyrst á föstudaginn.

Búið er að fella um eitt hundrað nautgripi í búinu og vinna vísindamenn nú að því greina sýni sem tekin voru úr þeim. Von er á niðurstöðum seinna í dag.

Gin-og klaufaveikir greindist í nautgripum á Wolford búinu í nágrenni Guildford í Surrey á föstudaginn. Í kjölfarið var búið einangrað og öllum gripum þess slátrað. Þá tók strax í gildi bann á flutningi búfénaðar í Bretlandi en um hundrað og ellefúþúsund býli eru þar í landi.

Ekki liggur fyrir hvernig dýrin smituðust en grunur beinist að rannsóknarmiðstöð þar sem dýrasjúkdómar eru rannsakaðir og bóluefni framleidd. Yfirmenn miðstöðvarinnar hafa þó neitað að smit hafi borist frá þeim og segja fyllsta öryggis hafa verið gætt. Þá kanna bresk heilbrigðisyfirvöld einnig hvort veiran hafi borist á nautgripabúið með flóðvatni þegar mest flæddi á Englandi fyrir nokkrum vikum.

Evrópusambandið hefur lokað á allan útflutning á fersku kjöti, lifandi skepnum og mjólkurvörum frá meginlandi Bretlands. Er talið að tap breskra bænda vegna þessa hlaupi á tugum milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×