Erlent

Bresk kona dæmd í fangelsi fyrir tvíkvæni

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Breskur dómstóll hefur dæmt fimm barna móður, Suzanne Mitchell, í skilorðsbundið fangelsi fyrir tvíkvæni. Suzanne giftist konu við borgaralega athöfn í Shrewsbury á meðan hún var ennþá gift karlmanni.

Samkvæmt breska blaðinu Guardian var Suzanne dæmd í átta mánaða fangelsi og 100 klukkustunda samfélagsþjónustu. Hún hefur viðurkennt að hafa logið því að hún væri einhleyp en bar fyrir dómi að hún hefði ekki vitað að hún væri að brjóta lög. Þeirri skýringu hafnaði dómarinn.

„Ég hafna þeirri skýringu þinni að þú hafir talið að þú værir að taka þátt í einhvers konar blessun á vinskap þínum. Þú vissir nákvæmlega hvað þú varst að gera og þú hefur ekki sýnt neina iðrun," sagði dómarinn fyrir Shrewsbury réttinum í Shropshire.

Konurnar voru gefnar saman við borgaralega athöfn í Shrewsbury og við það tækifæri lýsti Mitchell því yfir að hún væri einhleyp. Sambandið hélst ekki lengi og mánuði seinna slitu konurnar samvistir. Mitchell tók aftur upp samband við fyrrverandi eiginmann sinn.

Suzanne er talin vera fyrsta manneskjan sem er dæmd fyrir tvíkvæni af þessu tagi í Bretlandi síðan samkynhneigðum var gert heimilt að láta gefa sig saman í lok árs 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×