Erlent

250 heimili í Oxford rýmd

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Íbúum 250 heimila í Oxford var gert að yfirgefa þau í nótt, en borgin er sú síðasta til að verða fyrir barðinu á flóðunum sem geysað hafa á Englandi undanfarna daga.

Björgunarsveitir vinna nú að því að vernda enn eitt raforkuverið, eftir að Thames áin flæddi yfir bakka sína nálægt Botley hverfinu í Oxford. Raforkuverið sér meðal annars spítölum í miðborg Oxford fyrir rafmagni. Áin er enn í vexti og eru íbúar annarra hverfa í viðbragðsstöðu, en búist er við því að flóðið nái hámarki þar síðar í dag.

Unnið er að því að koma á rennandi vatni í Gloucershire, en þar hafa 350 þúsund manns verið vatnslaus frá því á sunnudag. Umhverfisráðherra breta, Hilary Benn, varaði í gær við því að neyðarástandinu væri hvergi nærri lokið og hét því að hækka fjárframlög til endurbyggingar vegna flóðanna í 24 milljónir punda.

Þingmenn þrýsta nú á ríkisstjórn breta að sækja fjármagn til evrópusambandsins til að mæta kostaði vegna flóðanna.

Umhverfisstofnunin í bretlandi varar enn við mögulegum flóðum á sex stöðum við árnar Severn og Thames.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×