Erlent

Herflugvél skreytt hakakrossum yfir Þýskalandi

Tom Cruise leikur Stauffenberg, höfuðsmann, í myndinni Valkyrjur.
Tom Cruise leikur Stauffenberg, höfuðsmann, í myndinni Valkyrjur. MYND/AFP

Íbúum þýska smábæjarins Löpten brá heldur betur í brún í gær þegar herflugvél skreytt hakakrossum birtist skyndilega á flugi yfir bænum. Flugvélin er frá tímum seinni heimsstyrjaldar en flug hennar var í tengslum við tökur á kvikmyndinni Valkyrjur með Tom Cruise í aðalhlutverki. Málið hefur vakið nokkra athygli í Þýskalandi og birtust myndir af vélinni yfir bænum í þýska götublaðinu Bild í dag.

Íbúarnir höfðu þó verið aðvaraðir fyrirfram og kvikmyndaframleiðendurnir fengið sérstakt leyfi frá bæjaryfirvöldum fyrir lágflugið. Kvikmyndin Valkyrjur gerist í seinni heimsstyrjöldinni og fjallar um tilraun þýskra herforingja til að steypa einræðisherranum Hitler af valdastóli. Tom Cruise er í hlutverki Claus von Stauffenberg, höfuðsmanns, sem var tekinn af lífi eftir að valdaránið rann út í sandinn.

Nokkrir íbúar Löpten náðu myndum af flugvélinni yfir bænum og birtust þær myndir í þýska götublaðinu Bild í dag.

Samkvæmt þýskum lögum er hakakrossinn og önnur tákn sem tengjast Nasisma bönnuð þar í landi. Kvikmyndaframleiðendur hafa hins vegar geta fengið undanþágu frá þessum lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×