Erlent

Bush vill friðarfund milli Ísraels og Palestínu

George Bush Bandaríkjaforseti boðaði í dag til alþjóðlegs leiðtogafundar til að finna leiðir til að hefja á ný friðarviðræður milli Ísraels og Palestínu. Gert er ráð fyrir að fundurinn verði haldinn síðar á þessu ári með fulltrúum Bandaríkjnna, Ísraels, Palestínumanna og arabaríkja. Bush tilkynnti líka í ávarpi í Hvíta húsinu í dag um 190 milljóna dollara aðstoð við bráðabirgðaríkisstjórn Mahmoud Abbas.

Ísraelska ríkisstjórnin tilkynnti fyrr í dag að hún myndi láta lausa 250 palestínska fanga. Fréttaskýrendur segja að skrefin sem stigin hafi verið í dag miði að því að styrkja stjórn Abbas gegn ríkisstjórn Hamas sem hefur tekið við stjórn Gaza. Abbas hefur kallað eftir endurnýjuðum friðarviðræðum við Ísrael. Ísraelsmenn segjast vilja ræða leiðir til að auka traust milli aðila, en hafa ekki sagst tilbúnir í viðræður um deiluefnin á þessu stigi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×