Enski boltinn

AZ Alkmaar býður Grétari Rafni nýjan samning

Hollenska liðið AZ Alkmaar hefur boðið íslenska landsliðsmanninum Grétari Rafni Steinssyni nýjan samning við félagið. Þetta sýnir að félagið ætli sér að halda Grétari í herbúðum liðsins, en enska úrvalsdeildarliðið Middlesbrough hefur verið á eftir honum.

Nýji samningurinn er til fjögurra ára, með möguleika á eins árs framlengingu. AZ Alkmaar vill fá fjórar milljónir punda fyrir Grétar, en Middlesbrough er talið vilja borga aðeins helminginn af þeirri upphæð.

Þar sem Middlesbrough sárvantar hægri bakvörð er talið að Gareth Southgate bíði ekki boðanna og fari strax að leita að öðrum bakverði. Luke Young, Jose Bosingwa og Philipp Degen eru sagðir ofarlega á lista hjá Southgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×