Íslenski boltinn

Guðjón Þórðarson: Keflvíkingar geta sjálfum sér um kennt

Guðjón Þórðarson segir Bjarna ekki hafa ætlað að skjóta á mark Keflvíkinga markinu umdeilda
Guðjón Þórðarson segir Bjarna ekki hafa ætlað að skjóta á mark Keflvíkinga markinu umdeilda Mynd/Eiríkur

Guðjón Þórðarson, þjálfari Skagamanna, segir Bjarna son sinn ekki hafa ætlað að skjóta á markið þegar hann skoraði annað mark Skagamanna gegn Keflavík í kvöld. Hér er um að ræða umdeildasta atvik sumarsins til þessa og ljóst að menn eiga eftir að rífast um það lengi. 

"Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir. Bjarni ætlar að spyrna boltanum aftur fyrir endalínu eins og bæði lið höfðu gert áður í þessum leik en það kemur maður í hann og pressar á hann um leið og hann spyrnir sem verður til þess að hann hittir boltann ekki nógu vel," sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Skagamanna og faðir Bjarna um markið umdeilda sem réði úrslitum á Skaganum í kvöld.

"Það er alveg klárt að hann gerði þetta ekki viljandi. Þeir sem þekkja Bjarna vita að það eru fáir menn heiðarlegri og einlægari. Hann koma meira að segja til mín út á hliðarlínu og spurði mig hvort við ættum ekki að gefa þeim mark - og hann svosem gerði það, því hann gaf boltann frá sér við vítateiginn þegar þeir skoruðu markið," sagði Guðjón.

"Við hefðum viljað vinna þennan leik með öðrum hætti með þessum en í sjálfu sér geta Keflvíkingar sjálfum sér um kennt, því Bjarni ætlaði aldrei að setja boltann á markið. Baldur kom og pressaði á hann og atvikið er skoðað í sjónvarpi sést það mjög glögglega. Hann ætlaði aldrei að gera þetta. Sigurinn er sigur - en ég hefði vilja gera þetta undir öðrum kringumstæðum," sagði Guðjón og sagði Keflvíkinga ekki hafa skapað sér eitt einasta færi úr opnu spili í leiknum að sínu mati.

Guðjón var að lokum spurður hvort ráðist hefði verið á Bjarna í búningsklefanum eftir leikinn. "Nei, ég held að það hafi nú sloppið - en það fóru þarna fram hlutir sem eru þeim sem þar voru til lítils sóma. Ég sá ekki atvikin, en mér var sagt frá þeim," sagði Guðjón í samtali við Þorstein Gunnarsson á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×