Erlent

Sveðjur ódýrari vegna minnkandi ofbeldis

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Frá kosningunum í apríl
Frá kosningunum í apríl MYND/Chris Hondros

Verð á sveðjum á sumum svæðum í Nígeríu hefur hríðlækkað í kjölfar kosninga í apríl, vegna minnkandi eftirspurnar frá vígamönnum á vegum stjórnmálamanna.

Ríkissjónvarpið í Nígeríu, NAN, gerði verðkönnun á sveðjum í Gombe sýslu í Norðaustur-Nígeríu. Stöðin komst að því að hágæðasveðja kostaði nú 400 naíra, eða um 180 krónur. Fyrir kosningarnar, sem voru litaðar af miklu ofbeldi í sumum sýslum, kostaði samskonar sveðja lágmark 800 naíra.

Sveðjur eru fyrst og fremst notaðar í landbúnaði í Nígeríu, en þær hafa einnig verið vinsælar meðal pólitískra ofbeldismanna.

,,Fyrir þingkosningarnar seldi ég lágmark sjö sveðjur á dag, en núna sel ég varla eina á dag." sagði Usman Masi, kaupmaður í sýslunni.

Stjórnartaumar í Nígeríu, sem er fjölmennasta land Afríku, losnuðu úr höndum hersins árið 1999 eftir þriggja áratuga herstjórn. Ofbeldi er enn þó enn þáttur í stjórnmálum, einkum í aðdraganda kosninga.

Evrópskir kosningaeftirlitsmenn mátu að minnst 200 manns hafi verið drepin í stjórnmálatengdu ofbeldi mánuðina fyrir kosningarnar í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×