Fótbolti

FIFA slakar á hæðartakmörkunum

"Ekki vera hræddur, Blatter - Hæðin drepur ekki," stendur hér á fána mótmælenda í Cuzco í Perú
"Ekki vera hræddur, Blatter - Hæðin drepur ekki," stendur hér á fána mótmælenda í Cuzco í Perú AFP

Alþjóða knattspyrnusambandið tilkynnti í dag að slakað yrði á reglum sem það hafði áður sett um hámarkshæð sparkvalla yfir sjávarmáli. Knattspyrnusamband Suður-Ameríku brást illa við þegar FIFA tilkynnti vellir í yfir 2500 metra hæð yrðu dæmdir ólöglegir.

FIFA komst að málamiðlun og hefur sett markið í 3000 metra yfir sjávarmáli, en það er ekki talið hollt fyrir leikmenn að spila í svo þunnu lofti. Þessar nýju tölur gera það að verkum að Kólumbíumenn fá að spila sína leiki í höfuðborginni Bogota í 2640 metra hæð og Ekvador má spila sína leiki í Quito sem er í 2800 metra hæð yfir sjávarmáli.

Þetta nær hinsvegar ekki yfir sparkvöll Bólivíumanna í La Paz sem er í 3650 metra hæð og heimavöll Perúmanna sem er í Cuzco í 3400 metra hæð. "Við erum með þessu að vernda leikmennina okkar í undankeppni HM og þessar takmarkanir ná ekki yfir keppnir í álfunni eða deildarkeppnir," sagði Sepp Blatter forseti FIFA.

Þetta er gert til að sjá til þess að heimalið fái ekki of mikið forskot vegna aðstæðna og vilja forráðamenn FIFA horfa til þess að heimavellir bjóði ekki upp á of mikla hæð yfir sjávarmáli, of mikinn raka, kulda eða hita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×