Fótbolti

Riquelme fór á kostum í sigri Boca Juniors

Leikstjórnandinn Juan Roman Riquelme var enn á ný í sviðsljósinu í gærkvöldi þegar hann skoraði bæði mörk argentínska liðsins Boca Juniors í 2-0 útisigri þess á brasilíska liðinu Gremio í síðari úrslitaleiknum í Copa Libertadores. Boca vann einvígið því samanlagt 5-0 og skoraði Riquelme þrjú mörk og lagði eitt upp í úrslitaeinvíginu.

Riquelme hefur verið sem lánsmaður hjá Boca í heimalandi sínu í vetur og lét svo sannarlega til sín taka í keppninni að þessu sinni. Hann kom Boca í 1-0 með glæsilegu skoti á 69. mínútu í leiknum í gær og innsiglaði öruggan sigur Argentínumannanna með því að fylgja eftir skoti níu mínútum fyrir leikslok. Framherjinn Martin Palermo var samur við sig og brenndi af vítaspyrnu á 85. mínútu, en hann vann sér það til frægðar árið 1999 að brenna af þremur vítaspyrnum í einum og sama leiknum þegar Argentínumenn léku við Kólumbíu í Suður-Ameríkukeppninni.

Þetta var í sjötta skipti sem Boca vinnur þessa keppni og er nú aðeins einum sigri frá því að jafna met landa sinna Independiente sem hefur unnið keppnina sjö sinnum. Gremio hafði unnið keppnina tvisvar, en átti sér ekki viðreisnar von eftir 3-0 tap í Argentínu í fyrri keppninni. Þeir voru vel studdir af 45,000 áhorfendum í gær, en snilli Riquelme kom í veg fyrir að liðið næði að koma spennu í úrslitaeinvígið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×