Íslenski boltinn

Teitur orðlaus yfir lánleysi sinna manna

Mynd/Hörður
"Það er ennþá einu sinni helvíti súrt að tapa þessu því mér fannst við eiga svo mikið af tækifærum í fyrri hálfleiknum - algjörum dauðafærum - að það er alveg ferlega súrt að tapa þessu," sagði Teitur Þórðarson í viðtali á Sýn eftir tap hans manna í KR gegn FH í kvöld.

"Þetta er búið að elta okkur svolítið og lítið við þessu að gera. Mér finnst við vera að spila ágætlega. Fyrri hálfleikurinn var opinn og skemmtilegur af beggja hálfu en sá síðari nokkuð lokaður. Við erum í dauðafærum alveg inni á markteig og náum ekki að nýta þau. Ég vil kalla það óheppni, en eitthvað af því verður líklega að rekja til getu manna," sagði Teitur.

KR-ingar hafa nú aðeins hlotið eitt stig eftir sex umferðir og þriðjungur Íslandsmótsins þegar að baki. Teitur var næst spurður hvort hann óttaðist aðgerðir stjórnar KR í ljósi lélegs gengis hjá liðinu. "Það er ekki mitt að gera breytingar. Ef KR vill gera breytingar þá er það þeirra að gera það. Ég reyni bara að vinna það starf sem ég var fenginn hingað til að vinna. Frumkvæðið kemur frá klúbbnum," sagði Teitur og var því næst spurður út í andann í herbúðum KR.

"Stemmingin hefur alltaf verið góð hjá strákunum og þeim sem eru hérna að standa í þessu, en það er auðvitað helvíti sárt að tapa alltaf þessum leikjum. Við erum að vinna vel og spila ágætlega, en það eru smáatriði sem gera það að verkum að okkur tekst ekki að klára þetta. Ég hef verið í aðstöðu áður þar sem maður hefur verið í basli með að klára leiki og það getur verið fljótt að snúast við ef maður vinnur einn leik," sagði Teitur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×