Íslenski boltinn

Maggi Gylfa: Valur átti skilið að vinna

mynd/daníel
Magnús Gylfason, þjálfari Víkings, viðurkenndi að lið Vals hefði átt skilið að sigra í leik liðanna í Landsbankadeildinni í kvöld. Hann sagðist í samtali við Sýn hafa verið óhress með fyrsta mark Vals þar sem hann vildi meina að uppbótartíminn hefði verið liðinn þegar Pálmi Rafn skoraði.

"Ég held við verðum að segja að sigur Vals hafi verið sanngjarn í kvöld. Reyndar fannst mér við leika ágætlega í fyrri hálfleik og allt í góðu þangað til við fengum á okkur þetta mark og mér fannst nú leiktíminn vera löngu búinn þegar markið kom. Það var mjög svekkjandi að fá þetta mark á sig eftir að okkur hafði tekist að gera það sem við lögðum upp með í hálfleiknum.

Þetta var ekki ósvipað og hjá landsliðinu í Svíþjóð um daginn. Það kom þarna 10 mínútna kafli í lok fyrri hálfleiks og í byrjun síðari þar sem við fengum á okkur þrjú mörk og segja má að það hafi gert út um leikinn. Ég er nú samt ánægður með mína stráka að hafa haldið áfram, náð að skora mark og hafa fengið dauðafæri til að gera þetta spennandi í lokin. En þetta er einfalt - við vorum bara ekki nógu góðir í dag," sagði Magnús Gylfason þjálfari Víkings.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×