Íslenski boltinn

Öruggur sigur Vals á Víkingi

Valsmenn höfðu góða ástæðu til að fagna í Laugardalnum í kvöld
Valsmenn höfðu góða ástæðu til að fagna í Laugardalnum í kvöld Mynd/Vilhelm

Valsmenn unnu í kvöld öruggan 3-1 sigur á Víkingi í fyrsta leik sjöttu umferðar Landsbankadeildarinnar. Valsmenn voru sterkari aðilinn í leiknum og sigurinn fyllilega verðskuldaður. Helgi Sigurðsson skoraði tvö marka Vals, það fyrra úr víti og Pálmi Rafn Pálmason skoraði fyrsta mark liðsins rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Sinisa Kekic minnkaði muninn fyrir Víking með marki úr víti 15 mínútum fyrir leikslok.

Helgi Sigurðsson var líklega besti maður vallarins í leiknum í kvöld og hefur nú skorað fimm mörk í deildinni. Hafi það slegið Víkinga út af laginu að fá á sig mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks, fór það langt með leikinn þegar Helgi Sigurðsson skoraði tvö mörk á tveimur mínútum (55. og 57.) í upphafi síðari hálfleiks. Víkingar sýndu ágætan karakter og náðu áhlaupi í restina eftir að Kekic minnkaði muninn úr víti á 76. mínútu, en sigur Vals var þó aldrei í hættu.

Valsmenn hafa nú hlotið tólf stig í deildinni eftir sex leiki og eru í öðru sæti deildarinnar - einu stigi á eftir FH sem á leik til góða gegn KR annað kvöld. Víkingur situr í fimmta sætinu með átta stig eftir sex leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×