Erlent

Bandaríkjaþing samþykkir fjárveitingafrumvarp vegna stríðs í Írak

MYND/AP

Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti nú í kvöld frumvarp um fjárveitingar til Íraksstríðsins en miklar deilur hafa staðið um frumvarpið á milli forsetans og demókrata sem eru í meirihluta á þinginu. Ekki er að finna í frumvarpinu tímamörk sem tilgreina hvenær bandaríkjamenn hverfa frá Írak.

Miklar deilur höfðu staðið um þetta atriði og beitti Bush forseti neitunarvaldi sínu á fyrra frumvarp vegna þess að þar voru tímamörk á veru bandarísks herliðs í landinu. Þó er að finna í nýja frumvarpinu klausu þess efnis að bandaríkjamenn hverfi með herlið sitt á brott um leið og þarlend stjórnvöld óska eftir því.

Forsetinn hefur þegar lýst yfir stuðningi við frumvarpið og búist er við því að öldungadeildin taki málið til afgreiðslu strax í kvöld eða á morgun. Frumvarpið gerir bandaríkjaher kleift að fjármagna stríðsrekstur sinn í Írak til loka september, en um er að ræða 120 milljarða Bandaríkjadala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×