Erlent

Þrjú til átta ár í að Íranir geti smíðað kjarnavopn

MYND/AP

Íranir eiga enn nokkuð í land með að smíða kjarnorkuvop, sé það á annað borð á dagskrá hjá stjórnvöldum, segir yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar. Mohammad ElBaradai segir að landið eigi ekki kost á kjarnorkuvopnum fyrr en í byrjun næsta áratugar eða jafnvel ekki fyrr en um hann miðjan. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í Lúxembúrg í dag.

Hann sagði ennfremur að engar vísbendingar hefði enn komið fram um að Íranir væru að þróa kjarnavopn og að leynilegar rannsóknastofur hefðu heldur ekki fundist.

ElBaradai sagðist á fundinum vera þeirrar skoðunnar að vesturveldin ættu að sætta sig við að Íran nýtti sér kjarnorku til raforkuframleiðslu og að fremur ætti að vinna að því að landið færi ekki út í að þróa vopn.

Ummælin koma í kjölfar yfirlýsingar Bandarískra yfirvalda þess efnis að herða eigi á viðskiptaþvingunum á hendur Írönum, sem þverskallast við að fara eftir kröfum „hins frjálsa heims," eins og George W. Bush orðaði það á dögunum.

Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinedjad, sagði hins vegar nýlega að ekki kæmi til greina að hætta við kjarnorkuáætlunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×