Erlent

Fjórir í gæsluvarðhald vegna aðildar að vændi í Osló

Fjórir voru úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald í dómhúsinu í Osló í dag vegna gruns um aðild að skipulögðu vændi. Einn þeirra er einnig ákærður fyrir mansal.

Um var að ræða tvær konur og tvo karla sem voru í hópi ellefu manna sem handteknir voru á þriðjudag í tengslum við rannsókn á skipulögðu vændi. Talið er að fólkið hafi flutt 40 konur frá Búlgaríu til Noregs til þess að stunda vændi á götum Oslóar og að hinir ákærðu hafi haft um hálfan milljarð króna upp úr því á hálfu ári.

Þrír dómssalir voru teknir undir mál ellefumenninganna en farið var fram á gæsluvarðhald yfir þeim öllum. Þeir sem þegar hafa verið úrskuraðir í gæsluvarðhald sæta tveggja vikna einangrun til þess að koma í veg fyrir að sönnunargögn í málinu spillist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×