Fótbolti

Boltinn byrjar að rúlla í Landsbankadeildinni á morgun

MYND/Vilhelm

Íslandsmótið í knattspyrnu hefst á morgun. FH-ingar hefja titilvörn sína á Akranesi í beinni útsendingu á Sýn. Formaður KSÍ segir á næstu 4-5 árum verði bylting í íslenskri knattspyrnu.

Flautað verður til leiks í Landsbankadeild karla á morgun klukkan 14 þegar ÍA og FH mætast á Akranesi. Það er eini leikur morgundagsins en hins vegar verða þrír leikir á sunnudaginn. Þá mætast Valur og Fram á Laugardalsvelli, Breiðablik og Fylkir á Kópavogsvelli og HK bregður sér yfir Fossvoginn og mætir Víkingum. Fyrstu umferðinni lýkur svo á mánudagskvöld þegar KR og Keflavík mætast í Vesturbænum.

Brotið verður blað í sögu Sýnar um helgina þegar þrír leikir úr fyrstu umferð verða sýndir í beinni. Opnunarleikur ÍA og FH verður að sjálfsögðu í öndvegi en þá hefst útsending klukkan 13.45. Á sunnudag verður svo leikur Vals og Fram í beinni klukkan 15.45 og á mánudagskvöld verður sýnt beint frá leik KR og Keflavíkur klukkan 19.45.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, var gestur í sérstökum þætti um Landsbankadeildina á Sýn í gærkvöldi. KSÍ hefur undanfarin ár stefnt að því að áhorfendur í Landsbankadeild karla fari yfir 100 þúsund manna múrinn.

Spurður hvað þyrfti til að ná því sagði Geir að knattspyrnan þyrfti að vera skemmtileg og mótið spennandi, en það hefði vantað upp á spennuna í efri hluta deildarinnar undanfarin ár. Geir vonast til að liðin komi vel undirbúin til leiks og að mótið verði jafnt og skemmtilegt.

Aðspurður um aðstöðu til knattspyrnuiðkunar sagði Geir hana hafa farið batnandi síðustu ár. Mikil uppbygging hefði t.d. átt sér stað í Laugardal, Kópavogi og á Valsvellinum og þá væri fyrirhuguð uppbygging í Hafnarfirði. Sagði hann að bylting yrði á íslenskum leikvöllum á næstu fjórum til fimm árum af þeim sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×