Erlent

Þriggja ára bresk stúlka numin á brott á Portúgal

Ekkert hefur spurst til þriggja ára breskrar stúlku sem talið er að numin hafi verið á brott úr herbergi á Portúgal þar sem hún svaf ásamt tveimur systkinum sínum. Stúlkan var ásamt foreldrum sínum í sumarfríi á Algarve.

Það var á fimmtudagskvöldið sem stúlkan hvarf úr herberginu þar sem hún svaf. Foreldrar hennar voru staddir á veitingastað skammt frá íbúðinni þar sem börnin sváfu og skiptust á að líta til með þeim. Faðir stúlkunnar leit inn í herbergið um klukkan níu og þá svaf Madeleine litla værum svefni ásamt systkinum sínum tveimur. Þegar móðir stúlkunnar kom hins vegar að íbúðinni skömmu fyrir klukkan tíu sá hún að glugginn að herberginu var opinn og dóttir hennar horfin.

Hátt í eitt hundrað og fimmtíu portúgalskir lögreglumenn hafa leitað stúlkunnar en lögreglan hefur útbúið teikningu af manni sem grunur leikur á að rænt hafi stúlkunni. Lögreglan segist jafnframt hafa fengið nokkrar ábendingar sem verið sé að kanna og er vongóð um að stúlkan sé á lífi.

Foreldrar stúlkunnar hafa ákaft beðið alla sem einhverjar upplýsingar geta veitt að aðstoða þau við leitina. Beðið var fyrir stúlkunni í bænastundum víða um Portúgal í dag og einnig í Leicestershire í heimabæ stúlkunnar í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×