Enski boltinn

Lucas Neill: Allt í sóma hjá West Ham

Lucas Neill
Lucas Neill NordicPhotos/GettyImages

Ástralski landsliðsmaðurinn Lucas Neill segir ekkert til í fréttaflutningi undanfarið sem lýst hefur upplausn í herbúðum West Ham. Neill segir að það eina sem skorti í liðið sé sjálfstraust, því margir af leikmönnum liðsins séu ungir og óreyndir.

"Ég hef heyrt ótal sögur af meintri upplausn hjá West Ham að undanförnu og það er frekar lítið að marka þær. Ég ætti nú að verða var við þessa hluti af því ég er nýkominn til liðsins, en ég hef ekki orðið var við neitt svona. Ég hlustaði ekki á neinar sérstakar ráðleggingar áður en ég kom til West Ham, heldur byggði ég ákvörðun mína á tilfinningu og sú tilfinning er jafn rétt núna og hún var þá.

Ég sé bara hóp af ungum leikmönnum sem vilja standa sig vel og ná árangri. Þeir þurfa kannski smá leiðsögn og suma þeirra skortir reynslu, en ég trúi því að ef við náum að vinna nokkra leiki í röð - muni liðið ná sér á flug eins og í fyrra þegar það náði fínum árangri í deildinni og fór langt í bikarnum.

Leikmennirnir hérna eru miklir atvinnumenn og það er engin sundrung í búningsherbergjum og engin klíkumyndun. Hér vinna menn saman og það sást vel í leiknum síðasta sunnudag - og mun sjást það sem eftir er tímabils," sagði Neill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×