Erlent

Birting á Múhameðsmynd veldur fjaðrafoki

Birting Jótlandspóstins á skopmyndum af Múhameð spámanni haustið 2005 olli mikilli reiði meðal múslíma víða um heim.
Birting Jótlandspóstins á skopmyndum af Múhameð spámanni haustið 2005 olli mikilli reiði meðal múslíma víða um heim. MYND/AP

Nemandi við Cambridge-háskólann í Englandi hefur valdið töluverðu fjaðrafoki en hann birti í vikublaði í skólanum eina af skopmyndunum af Múhameð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum haustið 2005 og ollu mikilli reiði meðal múslíma víða um heim.

Nemandinn var gestaritstjóri vikublaðsins Clareificatio en þar var umfjöllunarefnið trúarlegar háðsádeilur. Varaformaður Félags múslíma í Cambridge segist gáttaður á myndbirtingunni og þá hafa blaðinu borist fjölmargar kvartanir frá reiðum stúdentum.

Eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstsins hefur kennari við skólann lofað rannsókn á málinu og þá hefur aganefnd skólans verið kölluð saman í fyrsta sinn í manna minnum.

Tveir breskir fjölmiðlar hafa áður birt myndir Jótlandspóstsins af Múhameð spámanni, kirkjublaðið Y Llan í Wales og skólablaði Cardiff-háskóla, Gair Rhydd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×