Erlent

Hótaði að birta myndir af framhjáhaldi eiginkonunnar á Netinu

Lögreglan í Grenlandi í Þelamörk í Noregi fékk heldur óvenjulegt mál inn á borð hjá sér á dögunum. Var þar um að ræða konu sem óttaðist að eiginmaður hennar myndi setja myndbandsupptöku af framhjáhaldi hennar á Netið.

Eftir því sem norska ríkisútvarpið greinir frá fór konan út á lífið og dró heim með sér karlmann og hélt þannig fram hjá manninum sínum. Hún fékk hins vegar samviskubit og sagði manni sínum frá þessu. Hann sagði henni hins vegar að hann hefði tekið bólfarirnar upp á myndbandsupptökuvél og ætlaði að hefna sín á henni með því að setja myndirnar á Netið.

Konan vissi ekki sitt rjúkandi ráð og ákvað því að hafa samband við lögregluna sem ráðlagði henni að kæra manninn ef hann gerði alvöru úr hótunum sínum. Fréttinni fylgir jafnframt ráðlegging frá lögreglumanni í Þelamörk sem segir það góða reglu fyrir kynmök að kanna hvort myndavélar leynist á bak við gardínur eða málverk á heimilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×