Enski boltinn

Curbishley: Við erum að falla á tíma

Curbishley og félagar þurfa nú á kraftaverki að halda til að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni
Curbishley og félagar þurfa nú á kraftaverki að halda til að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni NordicPhotos/GettyImages

Alan Curbishley knattspyrnustjóri var að vonum niðurlútur eftir að hans menn í West Ham töpuðu 4-3 fyrir Tottenham í æsilegum leik í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann segir liðið vera að falla á tíma í botnbaráttunni og sagði vanþroska leikmanna hafa kostað liðið sigur í dag.

West Ham vantar 10 stig til að komast af fallsvæðinu og er útlitið því orðið vægast sagt dökkt hjá liðinu. "Liðin í kring um okkur í fallbaráttunni hafa verið að reita inn stig og því er þetta alltaf að verða erfiðara hjá okkur. Við eigum níu leiki eftir og ef við berjumst eins vel í þeim og í dag, eigum við smá möguleika - en það verður erfitt.

Við verðum að fá þrjú stig í hverjum einasta leik sem eftir er og nú dugar ekkert annað en sigrar. Það er samt ansi blóðugt fyrir okkur að vera að tapa leik eftir leik þar sem við höfum góða forystu og ég held að það verði að teljast nokkur vanþroski af okkar hálfu. Menn eru þó að berjast eins og ljón í hverjum leik og það er bæting frá því sem var - en það er eins og allt gangi okkur í móti núna," sagði Alan Curbishley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×