Enski boltinn

Benitez: Ég á ekki til orð

AFP

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, sagðist hvorki eiga til orð á spænsku né ensku til að lýsa yfir svekkelsi sínu með tapið gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

"Ég get ekki einu sinni tjáð vonbrigði mín á spænsku - hvað þá á ensku," sagði Benitez daufur eftir leikinn. "Við réðum algjörlega ferðinni frá upphafi til enda, en stundum er það heppni og ekkert annað sem ræður úrslitum í knattspyrnunni. Þegar maður ræður ferðinni gegn liði eins og United, þarf maður að vera alveg á tánum í vörninni því þeir refsa manni undir eins.

Vörn og markvarsla voru mjög góð hjá United í dag en við náðum ekki að skapa okkur nógu mörg færi. Ég tel þó að mark Craig Bellamy hefði átt að standa í fyrri hálfleiknum því hann var ekki rangstæður að mínu mati - en þegar maður hefur heilladísirnar einfaldlega ekki á sínu bandi, getur þetta farið svona.

Nú er United komið í algjöra lykilstöðu til að vinna titilinn og þó Chelsea sé með frábært lið, mega þeir ekki misstíga sig eitt augnablik - þá er þetta búið. Hvað okkur varðar, þýðir ekkert að gráta tapið í dag, við verðum að gera okkur klára fyrir Barcelona á þriðjudaginn - og við verðum tilbúnir," sagði Benitez.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×