Enski boltinn

Owen vandar Real Madrid ekki kveðjurnar

Michael Owen
Michael Owen NordicPhotos/GettyImages

Enski framherjinn Michael Owen segist hugsa til tíma síns með Real Madrid með hryllingi og segist fljótlega hafa gert sér grein fyrir því að hann ætti ekki möguleika á að vinna sér fast sæti í liðinu.

"Stundum var eins og það væri pólitísk andstaða gegn mér hjá félaginu. Ég man eftir því að hafa skorað fimm mörk í fimm leikjum fyrir liðið og í sjötta leiknum var mér svo skipt af velli þrátt fyrir að ég væri að spila mjög vel. Eftir það fer maður að hugsa hvað maður þurfi eiginlega að gera til að halda sæti sínu í liðinu.

Maður verður auðvitað að treysta knattspyrnustjóranum en það er afar blóðugt að vera með besta markahlutfallið hjá Real - og raunar í allri deildinni - og fá ekki að spila. Þá hugsar maður bara - ´skítt með þetta, ég er farinn heim," sagði Owen og bætti við að spænsku blöðin hefðu gengið enn lengra en þau bresku, sem þó hafa verið talin skæð hingað til.

"Ef liðið tapaði leik, var því undantekningalaust slegið upp á forsíðu að það væri í krísu. Maður vaknar daginn eftir leik og þar bíða 20 blaðsíður um leikinn í blaðinu þar sem tapið er krufið frá a til ö. Maður gat ekki hreyft sig án þess að það færi á síður blaðanna. Þetta var eitt af því sem fékk mig til að þrá ensku úrvalsdeildina aftur," sagði Owen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×