Enski boltinn

Eggert fékk dularfullt duft í pósti

NordicPhotos/GettyImages

Eggerti Magnússyni, fyrrverandi formanni KSÍ og stjórnarformannI enska úrvalsdeildarliðsins West Ham, barst í gær dularfullt bréf á skrifstofu sína í Lundúnum með með hvítu dufti.

Eftir því sem segir á vef breska blaðsins Daily Mail var lögregla kölluð til þar sem óttast var að um væri að ræða miltisbrand frá mjög reiðum áhanganda West Ham en félagið heyr nú harða fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni.

Nánari rannsókn leiddi þó í ljós að aðeins var um baðsölt að ræða en þau voru frá grískum munki sem þekkti Eggert ekki en taldi út frá hrjúfu yfirborði hans að honum veitti ekki af því að slaka á.

West Ham berst nú á fleiri vígstöðvum en í deildinni því félagið á hugsanlega yfir höfði sér að stig verði dregin af því vegna þess að félagið lagði ekki fram rétt skjöl í tengslum við komu Argentínumannanna Javiers Mascherano og Carlosar Tevez til liðsins í haust. Þannig hafi þeir orðið ólöglegir leikmenn. Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar hefur ekki ákært félagið formlega en rannsakar nú málið.

Og fram kemur í slúðurblaðinu Daily Express í dag að leikmenn og þjálfarar liðsins hafi rifist heiftarlega eftir tapið gegn Charlton um síðustu helgi. Þeim greindi á um það hverjir bæru ábyrgð á gengi liðsins í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×