Enski boltinn

Eiga ekki skilið að klæðast treyju West Ham

Ekkert annað en tap blasir við Carlos Tevez og félögum í West Ham og stuðningsmennirnir eru við það að fá nóg
Ekkert annað en tap blasir við Carlos Tevez og félögum í West Ham og stuðningsmennirnir eru við það að fá nóg NordicPhotos/GettyImages

Nokkrir af stuðningsmönnum West Ham í ensku úrvalsdeildinni hafa nú fengið sig fullsadda á ömurlegu gengi liðsins í deildinni í vetur. Í gær fór af stað undirskriftalisti meðal traustra stuðningsmanna félagsins þar sem lagt er til að kjörinu á leikmanni ársins hjá félaginu verði aflýst á þessu ári því enginn sé þess heiðurs verðugur.

"Leikmennirnir hafa allir verið ömurlegir í vetur og því er sú tilhugsun að verðlauna einn þeirra sem leikmann ársins hreinlega hlægileg. Skilaboð okkar til leikmanna með þessum undirskriftum eru skýr - þeir eiga ekki skilið að leika í treyju West Ham.

Við erum búin að horfa upp á þessa leikmenn verða sér til skammar leik eftir leik í allan vetur og þeim virðist vera nákvæmlega sama. Svo í þessi fáu skipti sem þeir ná að skora, dirfast þeir til að senda okkur stuðningsmönnunum tóninn bara af því við látum í okkur heyra þegar þeir spila eins og aumingjar.

Allt þetta sýnir bara að það á enginn skilið að vera kosinn leikmaður ársins í ár - nema þá helst kannski stuðningsmennirnir sem borga fyrir að horfa upp á þessa hörmung viku eftir viku," sagði Joe Chapman, ársmiðahafi og upphafsmaður uppátækisins. Undirskriftarlistinn fór af stað eftir hádegi í gær og sagt er að þegar hafi yfir 1000 undirskriftir safnast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×