Erlent

„Græn“ Óskarsverðlaunahátíð

AP

Al Gore og herferð hans gegn hlýnun loftslags vann stórt á Óskarverðlaunahátíðinni í nótt. Varaforsetinn fyrrverandi er í aðalhlutverki í myndinni An Inconvenient Truth, eða Óþægilegur sannleikur sem hlaut verðlaun sem besta heimildamyndin á hátíðinni. Myndin fjallar um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Gore sagði í þakkarræðu að heimsbyggðin þyrfti að taka saman höndum til að leysa loftslagsvandann, ekki væri um pólitískt vandamál að ræða heldur siðferðilegt. Myndin fékk líka verðlaun fyrir besta frumsamda lag íkvikmynd, „I Need to Wake Up" sem er samið og flutt af Melissu Etheridge. Hún þakkaði í ræðu sinni Gore fyrir að hafa veitt sér innblástur og sýnt fram á að umhyggja fyrir umhverfinu snerist ekki um hvar fólk stæði annars í stjórnmálum.

Málstaður Gore virðist hafa náð eyrum allmargra Hollywood-stjarna, en aldrei hafa fleiri mætt á hátíðina á umhverfisvænum ökutækjum. Þá kynntu Gore og Leonardo DiCaprio að þetta væri fyrsta „græna" Óskarsverðlaunahátíðin - að umhverfissjónarmið hefðu verið fléttuð inn í alla skipulagninguna. Þá var allt bréfsefni hátíðarinnar úr endurunnum pappír, Kodak-leikhúsið þar sem hátíðin fór fram var tekið í sérstaka rafmagnsnotkunarskoðun og lífrænn matur var á boðstólnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×