Erlent

Innflytjendur hamli efnahagsframförum

Jean-Marie le Pen
Jean-Marie le Pen AP

Þjóðernissinninn Jean-Marie Le Pen ætlar enn að blanda sér í baráttuna um forsetaembættið í Frakklandi. Hann kynnti kosningaáherslur sínar á flokksþingi í Lille um helgina og hét því að næði hann kjöri mundi hann hægja á flæði innflytjenda og minnka tengsl Frakka við Evrópusambandið.

Þetta er í fimmta sinn sem Le Pen býður sig fram til forseta og sennilega það síðasta. Hann er ekki talinn sigurstranglegur. Hann kom öllum á óvart í forsetakosningunum 2002 þegar hann hafði betur en frambjóðandi Sósíalista í fyrri umferð kosninganna og mætti því Jacques Chirac í síðari umferðinni. Þar hafði Chirac hins vegar öruggan sigur.

Le Pen sagði á flokksþinginu flæði innflytjenda til Frakklands vera hörmulega þróun og ef ekki væri neitt að gert yrðu engar efnahagslegar framfarir í Frakklandi. Mikil fagnaðarlæti brutust þá út þegar hann lofaði að senda alla ólöglega innflytjendur til síns heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×