Erlent

Vonir dvína um viðræður Palestínu, Ísraels og Bandaríkjanna

Það var þungbúið þrumuveður á Vesturbakkanum í dag þegar Condoleezza Rice hitti Mahmoud Abbas í höfuðstöðvum hans í Rammallah. Ráðamennirnir tveir gáfu aðeins færi á sér fyrir fundinn og lýsti Rice því yfir að friðarhorfur og sáttaleiðir á milli Ísraela og Palestínumanna yrðu helsta umræðuefni fundarins. Abbas tók í sama streng.

Fundurinn varði í tvær og hálfa klukkustund og að sögn aðstoðarmanna Abbas er spennan gríðarleg í herbúðum Palestínumanna, enda mikil pressa á þarlend yfirvöld

Að loknum fundi með Abbas, hélt Rice til fundar með Olmert en þau gáfu ekki færi á spurningum.

 

Sameiginlegur fundur með Rice,Abbas og Olmert verður svo á morgun, en hann var upphaflega ætlaður til að blása lífi í árangurslausar friðarviðræður milli Ísraela og Palestínumanna. Væntingar til fundarins á morgun hafa dvínað mjög, sérstaklega eftir harðorða yfirlýsingar Ehmuds Olmert í gær um að Bandaríkin og Ísraelar myndu ekki viðurkenna nýja þjóðstjórn Palestínumanna, ef hún virði ekki friðarsamkomulag, viðurkenni Ísraelsríki og dragi úr ofbeldi. Utanríkisráðherra Bandarikjanna reyndi að milda þessa yfirlýsingu í gær en í dag svaraði hún ekki spurningum blaðamanna hvort Bandaríkjamenn myndu sniðganga nýja þjóðstjórn Palestínu.

Fréttaskýrendur hafa í dag sagt að óþolinmæði Bandaíkjamanna sé veruleg í garð forseta Palestínu, þar sem hann vilji hvergi hvika frá sáttmála nýju þjóðstjórnar sinnar sem undirritaður var í Mekka fyrr í mánuðinum og batt enda á hrinu ofbeldis milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar.

Engin sameiginlegur blaðamannafundur hefur verið boðaður eftir fundinn á morgun en það ku sýna litla von ráðamannanna þriggja um árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×