Erlent

Viðræður um kjarnorkumál Norður-Kóreu hefjast á ný

AP

Á fimmtudag hefjast á ný viðræður sex ríkja um kjarnorkumál Norður-Kóreu. Ríkin sem eiga fulltrúa í viðræðunum eru Norður-Kórea, Suður-Kórea, Kína, Japan, Rússland og Bandaríkin. Norður-Kóreumenn sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju í október á síðasta ári.

 

Viðburðadagatal í kjarnorkumálum Norður-Kóreu síðustu fimm árin:

2002

Október: Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segist hafa sönnunargögn fyrir því að Norður-Kóreumenn hafi hafið auðgun úrans. Norður-Kóreumenn segjast eiga rétt á að eiga kjarnavopn.

Desember: Norður-Kóreumenn segjast ætla að endurræsa kjarnaofn í Yongbyon og reka eftirlitsmann Alþjóðakjarnorkueftirlitsins úr landi.

2003

Janúar: Norður-Kórea hættir aðild að samningi um höft á útbreiðslu kjarnavopna.

Ágúst: Viðræður á milli Norður- og Suður-Kóreu, Kína, Japan, Rússlands og Bandaríkjanna hefjast í Peking í Kína. Norður-Kóreumenn hóta að sprengja kjarnorkusprengju í tilraunaskyni.

Október: Norður-Kórea segist hafa náð að auðga plútoníum og að þeir vilji taka það til kostana.

2004

Janúar: Stjórnvöld í Pyongyang veita óopinberri rannsóknarnefnd frá Bandaríkjunum, þ.á.m. sérfræðingi í kjarnorkumálum að skoða kjarnorkuverið í Yongbyon.

Febrúar: Faðir pakistönsku kjarnorkusprengjunnar, Abdul Qadeer Khan viðurkennir að hafa veitt Lýbíu, Íran og Norður-Kóreu vitneskju um tækni til að smíða kjarnorkusprengju. Frekari viðræður sex ríkja fara fram í Peking.

Júní: Enn hittast fulltrúar sex ríkja. Bandaríkjamenn lofa efnahagsaðstoð og öryggisgæslu láti Norður-Kóreumenn af kjarnorkuáætlunum sínum.

2005

Febrúar: Norður-Kóreumenn viðurkenna að þeir eigi kjarnavopn og segjast ætla að hætta samningaviðræðum sex ríkja.

September: Samninganefnd sex ríkja gefa út yfirlýsingu eftir margra mánaða pattstöðu í viðræðunum. Norður-Kórea lofar að gefa kjarnorkuáætlun upp á bátinn í skiptum fyrir efnahagsaðstoð og opinber tengsl.

Nóvember: Fimmtu umferð umræðna sex ríkja lýkur án árangurs.

2006

Júlí: Norður-Kórea prófar sjö flugskeyti, þar á meðal langdrægt flugskeyti.

Október: Norður-Kórea sprengir sína fyrstu kjarnorkusprengju.

2007

Febrúar: Viðræður sex ríkja hefjast að nýju, viku eftir að erindrekar Norður-Kóreu og Bandaríkjanna hittast og ræða viðskiptabann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×