Erlent

Vilja til Bretlands til að rannsaka lát Litvinenkos

Alexander Litvinenko skömmu áður en hann lést á sjúkrahúsi í Lundúnum.
Alexander Litvinenko skömmu áður en hann lést á sjúkrahúsi í Lundúnum.

Rússneskir rannsóknarlögreglumenn sem rannsaka dauða fyrrverandi njósnarans Alexanders Litvinenkos hafa óskað eftir því við innanríkisráðuneyti Bretlands að fá að koma til landsins vegna rannsóknarinnar. Yfirvöld í Bretlandi hafa ekki tekið afstöðu til óskarinnar en lögreglan í Lundúnum rannsakar einnig málið.

Litvinenko lést í nóvember síðastliðnum eftir að eitrað hafði verið fyrir honum með hinu geislavirka efni pólon-210. Vinir hans saka rússnesk stjórnvöld um að standa á bak við tilræðið en Vladímír Pútín Rússlandsforseti hafnar því alfarið.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir heimildarmönnum sínum að sá sem líklegastur sé til að hafa eitrað fyrir Litvinenko sé Andrej Lugovoj, fyrrverandi yfirmaður hjá KGB, sem fundaði með Litvinenko daginn sem hann veiktist. Lugovoj segist hins vegar hafa orðið fyrir geislun sjálfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×