Erlent

Þjóðverjar heimsmeistarar í handknattleik

Þjóðverjar fagna heimsmeistaratitlinum í Köln í dag.
Þjóðverjar fagna heimsmeistaratitlinum í Köln í dag. MYND/AP

Þjóðverjar tryggðu sér í dag heimsmeistaratitilinn í handknattleik á heimavelli þegar þeir lögðu nágranna sína Pólverja í úrslitaleik frammi fyrir fullu húsi í Köln. Lokatölur í leiknum urðu 29-24.

Þjóðverjar náðu snemma forskoti í leiknum og leiddu 17-13 þegar flautað var til leikhlés. Í síðari hálfleik náðu þeir mest sjö marka forystu en Pólverjar náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 21-20, með góðum leikkafla þegar um tíu mínútur voru eftir. Endaspretturinn var hins vegar Þjóðverja og þeir sigruðu sem fyrr segir 29-24.

Þetta er þriðji heimsmeistaratitill Þjóðverja en 29 ár eru síðan þeir unnu hann síðast, þá undir merkjum Vestur-Þýskalands. Þá urðu Þjóðverjar heimsmeistarar á heimavelli, líkt og nú, þegar fyrsta heimsmeistarakeppnin í handknattleik var haldin árið 1938.

Fyrr í dag tryggðu Danir sér bronsið á mótinu þegar þeir lögðu Frakka örugglega í leiknum um þriðja sætið, 34-27.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×