Erlent

Aðgerðasinnar leggja aftur undir sig hús í Kaupmannahöfn

Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók undir kvöld um 80 aðgerðasinna sem lagt höfðu undir sig hús í norðvesturhluta borginnar. Hópurinn, sem berst fyrir nýjum samkomustað í borginni í kjölfar þess að Æskulýðshúsinu svokallaða var lokað, lagði húsið undir sig skömmu eftir hádegi í dag en það eru í eigu Kaupmannahafnarborgar.

Þetta er í annað sinn sem hópurinn leggur hús undir sig í mótmælaskyni því um miðjan janúar lagði hann undir sig yfirgefna verksmiðjubyggingu í norðvesturhluta borgarinnar af sömu ástæðum. Ekki kom til átaka milli lögreglu og unga fólksins en fólkinu var sleppt skömmu eftir að það hafði verið ákært fyrir húsbrot og skráð í bækur lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×